Innlent

Framkvæmdir enn á dagskrá í haust

Júlíus Jónsson
Júlíus Jónsson

„Við áttum ekki von á öðru en að þessi skýrsla yrði neikvæð," segir Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, um skýrslu Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar stækkunar Reykjanesvirkjunar, sem er í eigu HS Orku, sem Fréttablaðið greindi frá á mánudag.

Í skýrslunni er sagt að samlegðaráhrif þeirrar virkjunar sem er fyrir og fyrirhugaðrar stækkunar gætu haft neikvæð áhrif á gróður, landslag og hraun. Júlíus segir HS Orku ætla að vinna úr þessu. Enn sé á áætlun að hefja framkvæmdir í haust.

Skipulagsstofnun leggur til í skýrslunni, að ef leyfi fáist frá Orkustofnun um stækkun virkjunarinnar, þurfi að setja skilyrði um að séð verði um vöktun á áhrifum á kríu, gróður og lífríki sjávar.

„Við komum til með að vinna með leyfisveitendum og við munum hefja viðræður við Orkustofnun á næstunni," segir Júlíus spurður um hvort fylgt verði fyrir­mælum um vöktun.

Reykjanesvirkjun hefur haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna á Suðurnesjum, samkvæmt skýrslunni, til dæmis vegna lokunar hverasvæða. Hægt væri að laga þetta með því að opna hverasvæðin aftur. En kemur til greina að HS Orka geri það?

„Það þarf að gera nýjan veg til að hægt sé að opna en það má ekkert gera nema fá leyfi frá skipulagsyfirvöldum," segir Júlíus.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×