Innlent

Umboðsmaður Alþingis úrskurðar svæfingalækni í vil

TR hugsanlega skaðabótaskylt vegna ummæla fyrrum forstjóra þess.
TR hugsanlega skaðabótaskylt vegna ummæla fyrrum forstjóra þess.

Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að fyrrum forstöðumaður Tryggingastofnunnar, Karl Steinar Guðnason, hafi brotið gegn svæfingalækni með ummælum sínum varðandi ásakanir á hin fyrrnefnda um að hafa stolið tugum milljóna króna af stofnuninni. Svæfingalæknirinn, sem var sýknaður í héraði vegna málsins, vísaði ummælum Karls Steinars, auk fleiri atriða sem viðkoma samskipti stofnunarinnar við fjölmiðla, til umboðsmanns Alþingis. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að stofnunin sé hugsanlega skaðabótaskyld vegna málsins.

Í kvörtun sem svæfingalæknirinn sendi til umboðsmanns Alþingis á síðasta ári segir að hann sé ósáttur við athafnir og framgöngu Tryggingastofnunnar ríkisins gagnvart sér. Hann hafði þá verið kærður af stofnunni fyrir tug milljóna þjófnað sem hann átti að hafa framið yfir margra ára skeið. Málið rataði í fjölmiðla en svæfingalæknirinn taldi Tryggingastofnun tjá sig fjálglega við fjölmiðla, meðal annars vildi hann meina að yfirlitsblað sem fjölmiðlar fengu í hendur, hefði brotið gegn þagnarskyldu stofnunarinnar.

Mál svæfingalæknisins rataði fyrr dómstóla þar sem hann var sýknaður af ásökunum stofnunarinnar. Við það tækifæri lét Karl Steinar hafa eftir sér: „Einhvern veginn finnst mér eins og hálf þjóðin hlæi nú að þessum dómi. En dómstólar hafa sagt sitt og við höfum áfrýjað og trúum ekki öðru en að við vinnum það í Hæstarétti."

Síðar sagði forstjórinn eftirfarandi í framhaldi af því að fréttamaður hafði haft eftir honum í endursögn að með dóminum þætti forstjóranum hafa skapast einkennileg staða: „Ja, hvernig er það á vinnustað ef einstaklingur stelur tug eða tugum milljóna? Á að dæma viðkomandi til þess að vera áfram í starfi bara? Þó að vinnuveitandi vilji láta hann fara?"

Umboðsmaður Alþingis telur síðustu ummæli Karls Steinars ekki samræmast reglum og að auki baki þau stofnuninni hugsanlega skaðabótaskyldu. Umboðsmaður telur sig þó ekki geta úrskurðað um að stofnunin hafi almennt gerst brotleg vegna samskipta sinna við fjölmiðla varðandi þetta mál.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×