Erlent

Cheney leyndi þingið mikilvægum upplýsingum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Dick Cheney.
Dick Cheney.

Komið er á daginn að bandaríska leyniþjónustan leyndi þingið mikilvægum upplýsingum um aðgerðaáætlun gegn hryðjuverkum.

Það var sjálfur varaforsetinn þáverandi, Dick Cheney, sem gaf leyniþjónustunni CIA þau fyrirmæli að þingið skyldi ekki fá veður af áætlun leyniþjónustunnar frá árinu 2001 sem gekk út á að handsama eða koma fyrir kattarnef hæst settu mönnum hryðjuverkasamtakanna al Qaeda.

Öldungadeildarþingmaðurinn Dianne Feinstein greindi frá þessu í sjónvarpsviðtali í gær og sagði að Leon Panetta, yfirmaður leyniþjónustunnar, hefði greint frá þessu þegar hann kom fyrir þingnefnd í júní. Öldungadeildin hefur fyrirskipað rannsókn á málinu og sumir telja að Cheney hafi jafnvel gerst brotlegur við lög með því að skipa leyniþjónustunni að þegja um jafn-þýðingarmikil málefni við þing landsins.

Áætlunin er ekki í gildi lengur en kostnaður við hana var umtalsverður. Fól hún meðal annars í sér undirbúning og þjálfun leyniþjónustumanna í að fást við grunaða hryðjuverkamenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×