Erlent

Búist við að bréf George Washington fari á 300 milljónir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bréfið.
Bréfið.

Búist er við nýju meti í verði uppboðsgripa hjá Christie's-uppboðshúsinu í New York þegar bréf frá 1787 verður boðið þar upp.

Þetta er ósköp venjulegt sendibréf að sjá, fjórar síður handskrifaðar, enda ekki mikið um ritvélar á síðari hluta 18. aldar. Bréfritarinn gerir það hins vegar að verkum að menn búast við að þessar fjórar síður seljist fyrir upphæð sem samsvarar rúmum 300 milljónum íslenskra króna en það er George nokkur Washington sem undirritaði bréfið 9. nóvember 1787.

Fáum þarf væntanlega að segja að Washington var fyrsti forseti Bandaríkjanna og tók við embættinu 30. apríl 1789, sem sagt tæpum tveimur árum eftir að hann skrifaði bréfið sem var til frænda hans. Í bréfinu skrifar Washington um stjórnarskrá Bandaríkjanna sem var heldur betur ný af nálinni á ritunartíma þar sem hún tók gildi 17. september þetta sama ár, 1787.

Sagnfræðingar segja efni bréfsins einstakt þar sem í því megi finna eindregna stuðningsyfirlýsingu forsetans verðandi við nýju stjórnarskrána og rökstuðning fyrir stuðningnum. Bréfið hefur ekki komið fyrir sjónir almennings fyrr en nú og er fastlega búist við að hart verði tekist á um það á uppboðinu sem fram fer í næstu viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×