Lífið

Þögult diskó á Austurvelli

Dansar til að gleyma Hafdís Arnardóttir boðar fólk á Austurvöll til að taka þátt í þöglum diskódansi.fréttablaðið/anton
Dansar til að gleyma Hafdís Arnardóttir boðar fólk á Austurvöll til að taka þátt í þöglum diskódansi.fréttablaðið/anton

„Það var engin sérstök ástæða að baki þessu, mér fannst bara komið nóg af neikvæðum kreppufréttum og fannst kominn tími til að vera örlítið jákvæðari, manni líður vel þegar maður dansar og það losar um streitu. Íslendingar ættu að hugsa meira eins og Pollýanna á svona tímum,“ segir Hafdís Arnardóttir, sem skipuleggur þögult diskó á samskiptavefnum Fésbók.

Þögult diskó er orðið nokkuð þekkt fyrirbæri erlendis. Þá hittist fólk og dansar saman en tónlistin sem dansað er við kemur ekki úr hátölurum heldur úr heyrnartólum sem hver og einn ber. Hafdís, sem flutti nýverið heim frá London, segir að mikið sé um þögul diskó þar í borg. „Ég fór á svona viðburð í London. Þar er engin sérstök ástæða fyrir því að svona atburðir eru haldnir heldur þykir fólki þetta bara vera skemmtilegt. Það var mjög súrt að sjá alla dansa við mismunandi takt og heyra enga tónlist.“

Hafdís segist ekki hafa búist við því að atburðurinn mundi vekja eins mikla athygli og raun ber vitni en um 400 manns hafa boðað þátttöku sína. „Ég veit ekki hvort allt þetta fólk muni svo mæta á laugardaginn. En þá dansa ég bara ein við mömmu og pabba, þau ætla bæði að mæta auk annarra fjölskyldumeðlima og nokkurra vina minna,“ segir Hafdís hlæjandi.

Dansinn fer fram á Austurvelli á laugardaginn og hefst klukkan 22.10 og stendur til 22.35. Hafdís tekur fram að fólk eigi að mæta með eigin tónlist til að dansa við.- sm


Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.