Innlent

Seinka hugsanlega kosningum

Ríkisstjórnin telur að til greina komi að fresta kosningum til Alþingis um viku, svo að tími vinnist til að afgreiða öll þau mál sem hún telur nauðsynlegt að afgreiða fyrir kosningar. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir ríkisstjórnina vilja afgreiða mál sem komi endurreisn efnahagslífsins ekki við.

Í stjórnarsáttmála og samkomulagi stjórnarflokkanna við Framsóknarflokkinn er gert ráð fyrir að kosið verði til Alþingis hinn 25. apríl næst komandi. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að rætt hafi verið að fresta kjördegi um viku eða til annars maí, þó hún reikni frekar með að kosið verði 25. apríl.

En Jóhanna vill að þingið sitji lengur til að hægt verði að afgreiða stjórnarskrárbreytingar um stjórnlagaþing og fleira. Geir H. Haarde formaður Sjálfstæðisflokksins vill ekki fresta kosningum.

Forsætisráðherra segir ríkisstjórnina vilja afgreiða ýmis mál fyrir kosningar og því þurfi þingið að sitja eins nálægt kosningum og hægt sé.

Ríkisstjórnin vill meðal annars breyta kosningalögum til að opna fyrir persónukjör við næstu kosningar. Geir segir þessa tillögu allt of seint fram komna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×