Lífið

Dagskrá bókmenntahátíðar í dag

Bókmenntir Ngugi wa Thiong’o er í spjalli og upplestri í dag.
Bókmenntir Ngugi wa Thiong’o er í spjalli og upplestri í dag.

Þriðji í bókmenntahátíð er runninn upp og hefst gamanið í dag á hádegi í Norræna húsinu: tveir gestir sitja þar fyrir svörum. Fyrst spyr Gauti Kristmannsson Ngugi wa Thiong’o spjörunum úr en næsti sólarhringur er á vissan hátt helgaður þessu landflótta Keníu-skáldi. Hann les úr verkum sínum í kvöld í Iðnó og um miðjan dag á morgun, miðvikudag, er hann með fyrirlestur í Hátíðasal Háskólans.

Ngugi wa Thiong’o er fæddur 1938 og hefur landflótta dvalið í Bandaríkjunum síðari ár við kennslu í Irving-háskólanum. Hann hefur jöfnum höndum skrifað leikrit, skáldsögur og verk um stöðu menningar í Afríku.

Vendipunktur í lífi hans var fangelsun um eins árs skeið, en þá tók hann að skrifa á tungu feðra sinna. Verk hans eru bönnuð í Keníu og heimsókn hans þangað 2004 endaði með fyrirsát sem kostaði hann og konu hans nærri lífið. Hingaðkoma hans er einn af hápunktum hátíðarinnar og gamalli nýlenduþjóð stendur nærri hvað hann hefur að segja um Afríku og heiminn.

Seinni spjallgestur í hádeginu er David Sedaris. Þá verður kl. 14 í Norræna húsinu samtal Soffíu Auðar Birgisdóttur við tvo Færeyinga, Bergtóru Hanusardóttur og Jóanes Nielsen. Í trausti þess að áheyrendum sé tamari danska en færeyska verður samtalið á dönsku.

Á háskólatorgi verður kl. 16 fyrirlestur Luis López Nieves frá Púertó Ríkó í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. Klukkustund síðar les David Sedaris upp í Norræna húsinu, en upplesarar kvöldsins í Iðnó eru þau Jóanes Nielsen, Auður Ava Ólafsdóttir, Gyrðir Elíasson, Kristín Ómarsdóttir og loks Ngugi wa Thiong’o.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.