Innlent

Fimmtán þúsund ljósaperur prýða Las Vegas norðursins

Breki Logason skrifar
Fimmtán þúsund ljósaperur prýða best skreytta hús Reykjanesbæjar, í hverfi sem oft er nefnt Las Vegas norðursins. Eigandinn pantar allar skreytingarnar frá Bandaríkjunum og tekur viku í að klæða húsið í jólabúninginn.

Reykjanesbær hefur staðið fyrir samkeppni um skreytingar utandyra síðustu ellefu árin og oftar en ekki hefur það verið leigubílstjórinn Grétar Ólason sem hefur borið sigur úr býtum. Óhætt er að segja að Grétar sé vel að sigrinum kominn í ár, því þrátt fyrir kreppu þá sló hann ekkert af, heldur bætti við hjá sér.

Undanfarin ár hefur hann verið með 10 til 12 þúsund perur, en þær fóru upp í fimmtán þúsund nú í ár.

En er mikil samkeppni á milli manna í skreytingarbransanum? „Já, ég myndi nú segja það. Ég er hins vegar ekki í þessu út af þessari keppni, þannig séð. En þegar að það eru verðlaun í boði þá langar mig að vinna," segir Grétar.

Grétar segist aldrei hafa pælt í því hvað þetta áhugamál hans kosti, en hann leyfir ljósunum að loga til 6.janúar ár hvert.

Grétar segist hafa gaman að því þegar fólk stoppi við húsið hans og býður alla velkomna til þess að skoða það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×