Innlent

Eyþór ætlar ekki í framboð

Eyþór Arnalds
Eyþór Arnalds

Eyþór Arnalds stefndi að því að bjóða sig fram til Alþingis í komandi kosningum en hefur nú hætt við framboð. Hann segist frekar ætla að einbeita sér að sveitastjórnarmálum í Árborg þar sem hann hefur verið oddviti.

„Ég var nú aldrei búin að taka neina formlega ákvörðun. En ég fór yfir þetta með mínu fólki á Selfossi og það voru allir jákvæðir yfir því að ég færi á þing. Niðurstaðan varð hinsvegar sú að klára næstu sveitastjórnarkosningar sem eru næsta vor," segir Eyþór en hann hafði verið orðaður við fyrsta sætið í suðurkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjóra menn inn í bæjarstjórn í Árborg síðast og juku þann fjölda úr tveimur. Eyþór hefur þó verið í minnihluta í bæjarstjórn og segir núverandi bæjarstjórn hafa staðið sig illa.

„Ég ætla því að hjálpa til þar og það hefði veikt okkur ef ég hefði farið í þingið."

Eyþór segist einnig vera að vinna að krefjandi verkefnum í orkugeiranum og hann hefði þurft að fórna þeim hefði hann farið á þing.

Árni Mathiesen tilkynnti einnig í morgun að hann hyggðist ekki taka þátt í prófkjöri hjá flokknum. Bæði Árni og Eyþór höfðu verið orðaðir við efsta sæti listans.

Nú er ljóst að Ragnheiður Elín Árnadóttir og Árni Johnsen munu berjast um efsta sætið í kjördæminum, nema einhver blandi sér í baráttuna á síðustu stundu en framboðsfrestur rennur út á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×