Innlent

Gaf hundi hnéspark og réðist á tollvörð

Ólafur Vilberg Sveinsson var dæmdur fyrir að ráðast á tollvörð.
Ólafur Vilberg Sveinsson var dæmdur fyrir að ráðast á tollvörð.

Vítisengilinn og Fáfnismaðurinn Ólafur Vilberg Sveinsson var dæmdur fyrir að keyra öxl sína í bringu tollvarðar þegar leitað var að fíkniefnum í farangri hans á Leifsstöð í febrúar á síðasta ári. Áður rak hann hné sitt í kvið fíkniefnahunds sem stökk á hann og gaf til kynna að hann væri hugsanlega með fíkniefni í fórum sínum.

Ástæðan fyrir því að Ólafur keyrði öxl sína í bringu tollvarðarins var sú að annar tollvörður hugðist skoða vestið hans, sem er sérstaklega merkt Fáfni. Ólafi hugnaðist það ekki og hélt í vestið á meðan tollvörður togaði á móti. Að lokum tókst tollverðinum að hrifsa það úr greipum Ólafs en þá brást hann hinn versti við og keyrði öxlina í bringu annars tollvarðar sem var með þeim í herberginu.

Höggið kom tollverðinum á óvart og varð til þess að hann féll aftur fyrir sig. Tollgæslan hefur nokkrum sinnum haft afskipti af Ólafi vegna gruns um fíkniefnamisferlis en slíkt hefur aldrei fundist á Ólafi.

Sjálfur neitaði vítisengillinn sök en framburður vitna varð til þess að hann var sakfelldur fyrir alvarlegt brot gegn valdstjórninni. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi hann í tveggja mánaða fangelsi, en haldi hann skilorð í þrjú ár skal refsingin látin niður falla. Þá var Ólafi einnig gert að greiða allan sakakostnað.

Fáfnir eru nú flokkaðir sem áhangendur Vítisenglanna, eða Hells Angels, og telur greiningadeild Ríkislögreglustjóra sérstaka hættu stafa af þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×