Innlent

Dregið úr frumkvæðisvinnu lögreglu

Innan úr lögreglubifreið.
Innan úr lögreglubifreið. Mynd/Guðmundur Þ. Steinþórsson

Skortur á umferðareftirliti lögreglu getur haft slæm áhrif á íslenska umferðarmenningu, segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Hann segir skiljanlegt að frumkvæðisvinna lögreglu verði útundan í erfiðu árferði, en sú breyting verði að ganga til baka sem fyrst.

Umtalsverð aukning hefur verið á afbrotum sem almenningur tilkynnir til lögreglu á síðustu árum, en á sama tíma fækkar brotum sem uppgötvast með frumkvæðis­vinnu lögreglu, til dæmis með umferðareftirliti.

Þetta má lesa úr samantekt Fréttablaðsins á upplýsingum um afbrotatíðni frá Ríkislögreglustjóra. Miðað er við samanlagðan fjölda afbrota á fyrstu sex mánuðum hvers árs til að tölurnar séu samanburðarhæfar við fyrstu sex mánuði ársins í ár.

„Það getur verið áhyggjuefni ef umferðarlagabrotin eru látin sitja á hakanum, það skilar sér út í samfélagið þegar ökumenn átta sig á að lögreglan er ekki jafn mikið á vaktinni og hún hefur verið," segir Helgi.

Slíkt tekur þó tíma, jafnvel nokkur ár, og því segir Helgi að vissu leyti skiljanlegt að lögreglan bregðist við þegar þröngt sé í búi með því að draga úr eftirliti með hraðakstri, ölvunarakstri og öðrum umferðarlagabrotum.

Helgi segir fækkun á skráðum ölvunarakstursbrotum ekki vísbendingu um að ökumenn aki síður undir áhrifum. Þetta sé þvert á móti skýrt dæmi um að lögregla hafi ekki tíma og mannskap til að sinna eftirlitinu jafn vel og áður.

„Þetta er dæmi um áherslubreytingu sem lögreglan verður að gera í ljósi aðstæðna," segir Helgi. Fækkun lögreglumanna og fjölgun verkefna hafi augljóslega áhrif.

Þjófnuðum, innbrotum og eignaspjöllum hefur fjölgað á undanförnum árum. Það getur haft nokkurs konar samlegðaráhrif við fjárskortinn, og valdið því að lögregla hefur enn minni tíma til að sinna frumkvæðisvinnu, enda áhersla á að forgangsraða málum eftir mikilvægi.

Fíkniefnabrotum hefur fækkað nokkuð og segir Helgi líklegt að ástæðan sé blanda af fjárskorti og því að stærri mál sem upp hafi komið taki tíma frá frumkvæðisvinnu.

Einnig geti verið um áherslubreytingu að ræða hjá lögreglu, þannig að meiri áhersla sé lögð á að stöðva innflutning og dreifingu á fíkniefnum, en minni áhersla á að handtaka fíkniefnaneytendur, segir Helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×