Erlent

Átökin magnast á Gaza

Mynd/AP

Átök Ísraela og Palestínumanna á Gaza hafa magnast síðasta sólahringinn. Þrír ísraelskir hermenn féllu þegar landar þeirra skutu fyrir mistök á þá úr skriðdreka. Þrír Palestínumenn féllu þegar skotið var á skóla Sameinuðu þjóðanna í Gazaborg í morgun. Þar höfðu margir leitað skjóls frá vopnum Ísraela.

Þrír ísraelskir hermenn féllu og tuttugu særðust þegar skotið var fyrir mistök úr ísraelskum skriðdreka á hús á norðurhluta Gaza-svæðisins sem hermennirnir voru í. Fjórir þeirra sem særðust munu þungt haldnir. Tveir ísrelskir hermenn til viðbótar hafa fallið í átökum síðan aðgerðir Ísraela á Gaza hófust fyrir ellefu dögum.

Palestínumenn segja hundrað og tíu hafa fallið frá upphafi landhernaðar Ísraela fyrir þremur dögum til viðbótar þeim nærri fimm hundruð sem féllu í loftárásum áður. Ísraelar segjast hafa fell hundrað og þrjátíu liðsmenn Hamas-samtakanna í bardögum síðan innrás hófst á laugardagskvöldið.

Þrír Palestínumenn féllu þegar skotið var úr skriðdreka á skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna í Gazaborg í morgun. Palestínumenn hafa leitað skjóls í slíkum skólum á svæðinu og reynt þannig að forða sér frá árásum Ísraela.

Bardagarnir á Gaza hafa harnað síðasta sólahring og nú mun sótt gegn enn frekari skotmörkum í Gazaborg. Ísraelsher hefur og einnig í Khan Younis í suðurhluta Gaza þar sem eru stórar flóttamannabúðir. Krafa alþjóðasamfélagsins um vopnahlé verður háværari með hverjum deginum sem líkur. Ísraelar ljá ekki máls á slíku og forvígismenn Hamas ekki heldur.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna og leiðtogi Fatha-hreyfingar Palestínumanna, kemur til fundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna síðar í dag til að ræða stöðuna á Gaza. Þann fund sækja einnig utanríkisráðherrar Sádí Arabíu, Egyptalands, Frakklands og Bretlands.

Þrýst verður á ráðið að grípa til aðgerða. Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, bað í morgun ráðamenn í Sýrlandi að blanda sér í deiluna og beita áhrifum sínum til að fá Hamas-samtökin til samvinnu við alþjóðasamfélagið svo binda mætti enda á árásir Ísraela. Sarkozy sagðist sannfærður um að Sýrlendingum myndi takast að fá leiðtoga Hamas til að ganga að nýju samkomulagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×