Innlent

Ekki mikið tjón í Eyjum

Úr myndasafni. Frá Vestmanneyjum.
Úr myndasafni. Frá Vestmanneyjum.
Stormur er nú á Austfjörðum og við suðausturströndina og hafa bæði Veðurstofan og Vegagerðin sent út viðvörun. Þök hafa fokið af húsum, bæði á Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði. Þá hefur verð bálhvasst í Vestmannaeyjum í morgun, skip losnað frá bryggju, og hraðbátur, fiskikör og annað fokið.

Sterkur norðanvindur er nú í Vestmannaeyjum og hefur lögreglan þar haft í nógu að snúast í morgun enda vindhviður mælst allt að 40 metrar á sekúndu. Stórt fiskiskip, Kap VE, losnaði frá bryggju að aftan þegar landfestar slitnuðu, hraðbátur fauk af kerru og stóð þversum á götu, vinnupallar hafa fokið, fiskikör eru á ferðinni og þá brotnaði rúða þegar svalahurð fauk upp í íbúðarhúsi. Tjón er hins vegar ekki mikið að sögn lögreglu í Eyjum og er veður að lægja.

Það var hins vegar um hádegisbil í gær sem björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði var kölluð út vegna foks en þakskyggni og þak á íbúðarhúsi í bænum losnuðu. Þá fauk þak af hlöðu rétt innan við bæinn. Björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði var kölluð út þegar þak fauk í heilu lagi af garðhúsi á Fáskrúðsfirði í gær. Austanlands er þæfingur á Fjarðarheiði en verið er að moka.

Vegagerðin segir einnig þungfært á Háreksstaðaleið, Fagradal og Oddsskarði en mokstur stendur yfir. Þá er er einnig verið að moka leiðina milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur en þar er þæfingur sem og á Möðrudalsöræfum. Þungfært og stórhríð eru á Breiðdalsheiði og ófært um Öxi. Á Suðausturlandi eru óveður og hálka um Öræfi og Skeiðarársand, frá Lómagnúpi í Kvísker, og eins fyrir Hvalnes.

Vegagerðin segir ekkert ferðaveður víða um suðaustur- og austurströndina og biður vegfarendur að leita sér upplýsinga um færð og veður áður en lagt er af stað.




Tengdar fréttir

Þök hafa fokið af húsum á Austfjörðum

Stormur er nú á Austfjörðum og við suðausturströndina og hafa bæði Veðurstofan og Vegagerðin sent út viðvörun. Þök hafa fokið af húsum, bæði á Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×