Innlent

Þök hafa fokið af húsum á Austfjörðum

Stormur er nú á Austfjörðum og við suðausturströndina og hafa bæði Veðurstofan og Vegagerðin sent út viðvörun. Þök hafa fokið af húsum, bæði á Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði.

Vegagerðin segir ekkert ferðaveður víða um suðaustur- og austurströndina og biður vegfarendur að leita sér upplýsinga um færð og veður áður en lagt er af stað. Sérstaklega er varað við óveðri á Fjarðarheiði.

Það var þegar um hádegisbil í gær sem björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði kölluð út vegna foks en þakskyggni og þak á íbúðarhúsi í bænum losnuðu auk þess sem rúða brotnaði í öðru húsi vegna veðurs. Þá fauk þak af hlöðu rétt innan við bæinn. Björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði var kölluð út þegar þak fauk í heilu lagi af garðhúsi á Fáskrúðsfirði í gær. Björgunarsveitarmenn á Eskifirði voru einnig kallaðir út um áttaleytið gærkvöldi til aðstoðar fólki í bíl sem hafði farið út af veginum á Hólmahálsi milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar í lélegu skyggni. Fólkið var ómeitt.

Austanlands er ófært um Fjarðarheiði og Vatnsskarð eystra. Vegagerðin segir einnig þungfært á Háreksstaðaleið, Fagradal og Oddsskarði en mokstur stendur yfir. Þá er er einnig verið að moka leiðina milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur en þar er þæfingur sem og á Möðrudalsöræfum. Þungfært og stórhríð eru á Breiðdalsheiði og ófært um Öxi. Á Suðausturlandi eru óveður og hálka um Öræfi og Skeiðarársand, frá Lómagnúpi í Kvísker, og eins fyrir Hvalnes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×