Innlent

Hannes: Auðvelt að vera vitur eftir á

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor sat í bankaráði Seðlabankans.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðiprófessor sat í bankaráði Seðlabankans.
„Athugasemd Ríkisendurskoðunar er eflaust rétt, enda auðvelt að vera vitur eftir á," segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, stjórnmálafræðiprófessor og fyrrverandi bankaráðsmaður í Seðlabanka Íslands.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var gerð opinber í gær er Seðlabankinn gagnrýndur harðlega fyrir lán til fjármálafyrirtækja. Bankarnir sem hrundu hafi aflað sér lausafjár með lánum frá minni fjármálafyrirtækjum sem aftur hafi fengið lán frá Seðlabankanum gegn ótryggðum bréfum. Spyrja megi hvers vegna bankinn hafi ekki hert reglur um veðtryggingar fyrr en í ágúst 2008. Með því hefði hann getað dregið úr því tjóni sem hann og ríkissjóður urðu fyrir vegna bankahrunsins.

Hannes segir, í pistli sem birtist á fréttavefnum Pressunni, að það verði hins vegar að gæta að því hvað í athugasemdinni felist. „Hefði Seðlabankinn hert þessar reglur, þá hefðu bankarnir líklega hrunið talsvert fyrr. Þrátt fyrir allt vonuðu flestir gegn von, í lengstu lög, að einhverjir bankanna myndu standa af sér hina alþjóðlegu fjármálakreppu, sem er hin versta frá því í heimskreppunni. Úrlausnarefnið var að fleyta bönkunum yfir kreppuna, rétta þeim líflínu. En hvenær er líflína snara, sem óþarfi er að lengja í? Þeirri spurningu verður aðeins svarað með þeirri vitneskju, sem fæst eftir atburðarás, ekki fyrir hana," segir Hannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×