Erlent

Þúsund lögreglumenn drepnir í Mexíkó

Óli Tynes skrifar
Lík lögregluþjóna sem voru pyntaðir áður en þeir voru myrtir.
Lík lögregluþjóna sem voru pyntaðir áður en þeir voru myrtir. Mynd/AP

Síðan Felipe Calderon forseti Mexíkós hóf baráttu gegn eiturlyfjahringum árið 2006 hafa yfir ellefu þúsund manns fallið í valinn. Af þeim eru yfir eittþúsund lögreglumenn.

Glæpagengin reyna allt hvað þau geta til þess að halda lögreglunni og öðrum embættismönnum í skefjum.

Það er reynt með mútum hótunum og svo morðum ef hitt gengur ekki. Síðast á þriðjudag fundust lík tólf lögreglumanna í skurði í héraðinu Michoacan. Þeir höfðu verið pyntaðir áður en þeir voru myrtir.

Meðal annarra fórnarlamba síðustu daga var borgarstjóri í bænum Namuquipa. Hann hafði tekið virkan þátt í baráttunni gegn eiturlyfjahringunum og látið fjölmargar hótanir sem vind um eyru þjóta.

Fimmtán grímuklæddir menn vopnaðir hríðskotarifflum skutu hann til bana þegar hann var á leið til vinnu sinnar á þriðjudagsmorgun.

Glæpagengin eru óhugnanlega vel búin vopnum. Liðsmenn þeirra ráða yfir sprengjuvörpum, eldflaugum, handsprengjum og þungum vélbyssum auk þess sem vopnabúr þeirra eru troðfull af hríðskotarifflum og skammbyssum.

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna sem fer með eiturlyfja og glæpamál segir að eiturlyfjahringarnir í Mexíkó reyni nú að komast inn í Evrópu og beiti við það mikilli hörku.

Norðmenn hafa af því sérstakar áhyggjur. Norska blaðið Aftenposten hefur skýrt frá því að hringarnir hafi valið Osló sem dreifingamiðstöð fyrir Evrópu.

Blaðið segir að það hafi verið staðfest úr mörgum áttum að útsendarar frá Mexíkó séu þegar komnir til borgarinnar til þess að undirbúa starfsemina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×