Innlent

Steingrímur segir málið margrætt

Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, vill að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ræði um Icesave-málin við starfsbræður sína í Bretlandi og Hollandi. Vill hún að gerð verði úrslitatilraun til að rétta hlut Íslands í málinu og að það verði gert augliti til auglitis.

Á þingfundi í gærmorgun vitnaði Siv til yfirlýsinga fjármálaráðherra Bretlands og Hollands, annars vegar um að tryggingar Bretanna taki bara til banka sem heyra undir yfirráð breska fjármálaeftirlitsins og hins vegar að regluverk EES um innstæðutryggingar eigi ekki við þegar kerfishrun verður.

Íslensku bankarnir heyrðu ekki undir breska fjármálaeftirlitið og sannanlega varð kerfishrun á Íslandi með falli bankanna fyrir rúmu ári.

Vildi hún að þessar yfirlýsingar yrðu grunnur viðræðnanna.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svaraði því til að þessi mál hefðu verið margrædd við stjórnvöld ytra og sjónarmiðum Íslendinga haldið á lofti. Rétturinn til að láta reyna á lögmæti skuldbindinga Íslendinga hafi verið viðurkenndur af Bretum og Hollendingum.

„Hvar er baráttuviljinn?“ spurði þá Siv en fékk sömu svör frá Steingrími; málið hefði margsinnis verið rætt án þess að staða þess hefði breyst.- bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×