Erlent

Játar að ekkert sé vitað um bin Laden

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Osama bin Laden.
Osama bin Laden. MYND/AP

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna viðurkenndi í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina að engar upplýsingar um felustað Osama bin Laden hafi legið fyrir svo árum skiptir.

Robert Gates sagði einfaldlega nei þegar fréttamaður ABC spurði hann hvort hann gæti staðfest sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar talíbana nokkurs, sem er í haldi Bandaríkjahers, að Osama bin Laden hefði sést í Afganistan fyrr á árinu. Eins játaði varnarmálaráðherrann að engin haldbær gögn um hugsanlegan felustað bin Laden hefðu komist í hendur Bandaríkjamanna svo árum skipti.

Gates sagði það þó líklegast, að mati greiningaraðila hers og leyniþjónustu, að al-Qaeda-leiðtoginn væri einhvers staðar í fjalllendinu í Norður-Waziristan-héraðinu í Pakistan en þar má líkja því við leit að nál í heystakki að finna mann sem vill fara huldu höfði, hvað þá ef hann þekkir til á svæðinu. Einnig telur Bandaríkjaher það líklegt að bin Laden líti annað slagið í heimsókn til Afganistan og fundi með al-Qaeda-liðum þar en skammt er til afganistönsku landamæranna frá því svæði þar sem hann er talinn dyljast.

Eftir átta ára leit að bin Laden og innrás í Afganistan til höfuðs honum í október árið 2001 hafa bandarísk stjórnvöld ákveðið að draga úr ákafanum við að finna leiðtogann og einbeita sér að öðrum verkefnum í Afganistan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×