Innlent

Tryggingagjald látið kosta atvinnuleysið

Af sextíu milljarða tekjum af tryggingagjaldi næsta ár er áætlað að 28,3 milljarða þurfi til að standa undir greiðslu atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði.Fréttablaðið/GVA
Af sextíu milljarða tekjum af tryggingagjaldi næsta ár er áætlað að 28,3 milljarða þurfi til að standa undir greiðslu atvinnuleysisbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði.Fréttablaðið/GVA

Tryggingagjöld, sem eiga að skila ríkissjóði um sextíu milljörðum í tekjur á næsta ári, gefa af sér rúma fjörutíu milljarða í ríkissjóð á þessu ári.

Tryggingagjöld leggjast ofan á allar launa- og hlunnindagreiðslur til launafólks í landinu. Þau voru 5,34 prósent í byrjun árs, hækkuðu í sjö prósent í sumar og hækka í 8,35 prósent á næsta ári, samkvæmt frumvarpi sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Tryggingagjöld eru sett saman úr almennu tryggingagjaldi, sem er 4,54 prósent, og atvinnutryggingagjaldi, sem nú er 2,21 prósent en var 0,65 prósent þar til í sumar. Frá áramótum verður atvinnutryggingagjaldið 3,81 prósent.

Atvinnutryggingagjaldið rennur í Atvinnuleysistryggingasjóð og stendur undir greiðslu atvinnuleysisbóta. Rökin fyrir þeim hækkunum sem orðið hafa á gjaldinu liggja í því hve mikið atvinnuleysi hefur aukist. Á þessu ári skilaði atvinnutryggingagjaldið rúmum fimmtán milljörðum í ríkis­sjóð. Útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs námu hins vegar um 26 milljörðum. Hallinn var brúaður með láni frá ríkissjóði.

Með þeirri hækkun í 3,81 prósent af launaveltu í landinu, sem Alþingi er nú með í undirbúningi, er stefnt að því að atvinnutryggingagjaldið skili um 28,3 milljörðum króna árið 2010 og á það að nægja til þess að standa að öllu leyti undir kostnaði við greiðslu atvinnuleysisbóta.

Almenna tryggingagjaldið, sem er 4,54 prósent, á að skila um 31 milljarði á næsta ári. Þar af eiga um tuttugu milljarðar króna að renna í almenna lífeyristryggingakerfið. 7,7 milljarðar fara í Fæðingar­orlofssjóð en samkvæmt lögum er skylt að láta allt að 1,08 prósentum af tryggingagjaldstofni í þann sjóð. Einnig munu um 2,3 milljarðar renna til lífeyrissjóðanna og jafna milli þeirra byrði af greiðslu örorkulífeyris.

Öll þessi verkefni eru stórir þættir í velferðarkerfinu. Að því leyti stingur einn útgjaldapóstur, sem er beintengdur innheimtu tryggingagjalds, í stúf.

Staðlaráð, sem hefur sjö starfsmenn og vinnur að því að innleiða staðla í íslensku atvinnulífi, fær sem endranær sína hlutdeild í tryggingagjaldi næsta ár; 0,07 prósent af öllum greiddum launum í landinu munu skila Staðlaráði 50,4 milljónum króna í tekjur næsta ár, samkvæmt frumvarpi til fjárlaga.peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×