Enski boltinn

Ferguson óhress með ástandið á Wembley

Nordic Photos/Getty Images

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur nú bæst í hóp þeirra sem gagnrýnt hafa ástandið á grasinu á Wembley leikvangnum í Lundúnum.

United féll úr leik gegn Everton í undanúrslitum enska bikarsins í gær og ekki er hægt að segja að yfirborð vallarins hafi verið glæsilegt.

Arsene Wenger stjóri Arsenal kallaði ástand vallarins hlægilegt eftir tapið gegn Chelsea á laugardaginn og Ferguson sagðist hafa teflt fram jafn ungu liði og raun bar vitni í gær því völlurinn hafi verið svo lélegur.

Wembley kostaði hvorki meira né minna en 750 milljónir punda í smíðum og því mætti ætla að grasið ætti að vera boðlegt á vellinum.

"Þetta er ekki gras sem hæfir velli eins og Wembley. Það er bagalegt að eyða öllum þessum peningum og hafa ekki boðlegan völl. Þegar ég sá ástandið á vellinum, vildi ég ekki eiga það á hættu að fara í framlengingu með mitt sterkasta lið. Ég ákvað því að gefa ungu leikmönnunum tækifæri, því við erum félag sem byggir á því. Við sjaum ekki eftir því," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×