Enski boltinn

Úrvalsdeildinni er stjórnað af ösnum

AFP

Mohamed Al Fayed, eigandi Fulham, sparar ekki stóru orðin þegar hann segir skoðanir sínar á ensku úrvalsdeildinni og enska knattspyrnusambandinu.

Í pistli í Evening Standard fer Egyptinn fram á að komið verði á launaþaki í úrvalsdeildinni til að vega gegn síhækkandi launakostnaði bestu leikmanna deildarinnar.

"Útgjöld okkar ruku upp um 17% á síðasta ári. Hvernig má það vera að leikmenn séu að þéna 15-20 milljónir punda á ári? Það er geggjun. Það verður að koma á launaþaki, en ég hef áhyggjur af því að það muni aldrei gerast því úrvalsdeildinni og enska knattspyrnusambandinu er stýrt af ösnum sem hafa ekkert viðskiptavit og eru blindaðir af peningum," sagði Al Fayed og bætti við að það væri hneyksli hvað knattspyrnufélögin á Englandi sjá lítið af öllum þeim peningum sem fást fyrir sjónvarpsréttinn í úrvalsdeildinni.

Hann vill að aðrir stjórnarformenn í úrvalsdeildinni láti í sér heyra og sýni kjark.

"Ég vil hjálpa hinum félögunum. Ég segi það sem mér finnst og aðrir stjórnarformenn ættu að gera það líka. Þeir verða að vakna úr dáinu og hjálpa mér í baráttunni við úrvalsdeildina og enska knattspyrnusambandið. Ég skal meira að segja bjóða þeim skoska hjartarpunga í Harrods. Við þurfum allir smá pung í þessum bransa," sagði Al Fayed.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×