Innlent

Betra að fá lánað en staðgreiða

Neytendur sem staðgreiða vörur geta verið í lakari réttarstöðu en þeir sem borga með raðgreiðslum fari fyrirtækið í þrot, segir talsmaður neytenda. Dæmi eru um að fólk sitji uppi með gallaðar og jafnvel ónýtar vörur sem það fær ekki bætt vegna þess að fyrirtækið sem seldi því vöruna hefur skipt um kennitölu.

Kona sem hafði samband við Fréttastofuna sagðist vera í þeirri stöðu að sitja uppi með bilaða vöru sem hún fengi ekki bætta þar sem fyrirtækið sem seldi henni vöruna hefur nú skipt um kennitölu. Konan hafði keypt sér tölvu hjá BT á raðgreiðslum. Stuttu síðar, eða í byrjun nóvember á síðasta ári, fór Árdegi, eigandi BT, fram á gjaldþrotaskipti. Hagar keyptu allar eignir BT verslananna rúmri viku síðar. Um þetta leiti bilaði tölva konunnar. Hún hefur fengið þau skilaboð að tölvan sé ekki í ábyrgð hjá nýjum eigendum BT og því þarf hún að greiða af tölvunni, sem er ónothæf, næstu 30 mánuðina.

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segist hafa heyrt mörg dæmi um svona mál og gera megi ráð fyrir að þau muni aukast á næstunni. Það séu þó úrræði í boði. Gísli segir réttarstöðu neytenda betri ef tekið hefur verið svokallað neytendalán eða greitt með raðgreiðslusamningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×