Körfubolti

Isom hættur hjá Þór

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cedric Isom í leik með Þór.
Cedric Isom í leik með Þór. Mynd/Anton
Nú er ljóst að Cedric Isom mun ekki spila aftur með Þór á tímabilinu eins og vonir stóðu til um.

Isom meiddist skömmu fyrir jól og var þá ákveðið að segja ekki upp samningi hans, þrátt fyrir erfiðar efnahagslegar aðstæður. Bati Isom hefur verið mun hægari en Þórsarar áttu von á.

„Þetta er í takt við annað, það fellur ekkert með okkur þennan veturinn. Við tókum Cedric til baka á þeim forsendum að hann myndi klárlega missa af fyrstu þremur leikjunum eftir jól og FSu leikurinn væri spurningarmerki, þó meiri líkur en minni á að hann gæti spilað þann leik. Bati hans er því miður mun hægari en áætlað var og þar sem hann verður ekki með á morgun og litlar líkur á að hann verði tilbúinn eftir viku þá er í raun ekkert annað í stöðunni en að leiðir skilji," sagði Kári Þorleifsson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, á heimasíðu félagsins.

Hrafn Kristjánsson, þjálfari liðsins, að ákvörðunin um að halda Isom hafi að hluta til verið byggðar á röngum upplýsingum frá læknum hans í Bandaríkjunum.

„Við tókum ákvörðun um að standa með stráknum og sjáum ekki eftir því enda er Cedric löngu búinn að sanna sig sem einn besta bakvörð landsins á þeim tíma sem hann spilaði með Þór. Við óskum Cedric alls hins besta og þökkum honum fyrir hans framlag til félagsins. Hann hefur reynst okkur alveg frábær félagi jafnt innan vallar sem utan," sagði Hrafn.

Þór fékk Bandaríkjamanninn Daniel Bandy til að fylla í skarð Isom og er nú ljóst að hann mun spila með liðinu til loka tímabilsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×