Innlent

Telur fasteignamarkaðinn vera að taka við sér

Fasteignaverð hefur lækkað um 30% frá því að kreppan skall á segir formaður Félags fasteignasala sem telur þó vísbendingar um að markaðurinn sé að taka við sér og ekki komi til frekari lækkana.

57 kaupsamningum var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Þetta er nokkur aukning ef litið er á meðaltal þinglýstra kaupsamninga á þessu ári en þeir hafa verið 34 í viku.

Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, segir að hluti þessara samninga séu makaskipti, í öðrum tilvikum séu bankarnir að leysa til sín eignir og einnig séu dæmi um að byggingarfyrirtæki séu að greiða skuldir með fasteignum. Hún segir þrátt fyrir þetta merki um að fasteignamarkaðurinn sé farinn að taka við sér. Fastaeignasalar hafi fundið fyrir aukni fyrirspurn frá því um miðjan ágúst.

Ingibjörg segir að ástæðan fyrir þessu sé uppsöfnuð þörf markaðarins, fólk þurfi bæði að minnka og stækka við sig og slíkt breytist ekki þrátt fyrir kreppu. Fólk hafi vitanlega þörf fyrir að fólk geti átt viðskipti með fasteignir sínar. Þetta séu ekki gullstangir í banka heldur heimili fólks.

Ingibjörg telur ekki að fasteignaverð muni lækka meira en orðið er. Byggingarkostnaður hafi hækkað mikið og til þess að munurinn milli fasteignaverðs og byggingarkostnaðar verði ekki of mikill sé ekki meira svigrúm fyrir frekari lækkanir. Fasteignaverð hafi rýrnað mikið frá því að kreppan skall á fyrir ári.




Tengdar fréttir

Hugsanlega að þiðna á botnfrosnum íbúðamarkaði

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu voru 57 í síðustu viku og er það meira en hefur verið í einni viku síðan í október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×