Enski boltinn

Heiðar spilaði í sigri QPR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helguson í leik með QPR.
Heiðar Helguson í leik með QPR. Nordic Photos / Getty Images

QPR vann 3-2 sigur á Sheffield Wednesday í ensku B-deildinni í dag og spilaði Heiðar Helguson allan leikinn fyrir fyrrnefnda liðið.

Heiðar hefur verið frá vegna meiðsla en var í byrjunarliðinu í dag. Hann átti meðal annars skot í stöng og náði þó ekki að skora, þó svo að hann hafi fengið nokkur góð færi til þess.

Sheffield Wednesday komst í 2-0 í leiknum en QPR skoraði þrívegis í síðari hálfleik og vann góðan sigur.

Jóhannes Karl Guðjónsson kom inn á sem varamaður á 73. mínútu í liði Burnley sem tapaði fyrir Cardiff á útivelli, 3-1. Ross McCormack, sem skoraði fyrir skoska landsliðið gegn því íslenska um mánaðamótin, skoraði tvö marka Cardiff í dag og bæði á síðustu fimm mínútum leiksins.

Coventry gerði markalaust jafntefli við Charlton. Aron Einar Gunnarsson lék ekki með Coventry vegna meiðsla.

Hið sama má segja um þá Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson hjá Reading sem gerði 2-2 jafntefli við Reading.

Wolves er með sex stiga forystu á toppi deildarinnar eftir 3-2 sigur á Derby á útivelli. Birmingham er í öðru sæti en liðið gerði 1-1 jafntefli við Plymouth í dag.

Sheffield United, Cardiff, Reading og Burnley koma næst. QPR er í tíunda sæti og Coventry því fjórtánda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×