Innlent

Eykt með verk fyrir nærri 600 milljónir

Ein elstu hús borgarinnar brunnu hér í apríl 2007, meðan á þáverandi meirihlutasamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks stóð. Borgarstjórinn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hét því þá þegar að gömlu húsin yrðu endurreist.
Fréttablaðið/vilhelm
Ein elstu hús borgarinnar brunnu hér í apríl 2007, meðan á þáverandi meirihlutasamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks stóð. Borgarstjórinn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hét því þá þegar að gömlu húsin yrðu endurreist. Fréttablaðið/vilhelm
Verktakafyrirtækið Eykt hefur fengið verkefni fyrir 585,1 milljón króna fyrir Reykjavíkurborg í þremur verkefnum síðustu þrjú ár, samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmda- og eignasviði borgarinnar. Árið 2007 vann fyrirtækið að flutningi Strætós að Hesthálsi fyrir 423,6 milljónir, eftir að hafa fengið verkefnið í gegnum útboð.

Árið 2009 fékk Eykt samning í tengslum við frágang lóðar umhverfis Höfðatorg, upp á 17,9 milljónir króna. Verkið fólst í gatnagerð og lagnavinnu.

Í september 2009 fékk fyrirtækið svo uppsteypuverkefni á bruna­reitnum svokallaða við Lækjargötu og Austurstræti í gegnum umdeilt útboð. Það verkefni hljóðar upp á 143,6 milljónir króna.

Fonsi ehf. hafði boðið minna, 137,8 milljónir, í þetta síðastnefnda verk, en fékk það ekki. Framkvæmdastjóri Fonsa hefur síðan sakað fulltrúa Framsóknarflokksins um spillingu vegna þessa, í ljósi þess að Eykt styrkti flokkinn fyrir kosningar. Flokkurinn neitar þessu með öllu.

Eykt mun engin verkefni hafa fengið hjá borginni árin 2006 og 2008. - kóþ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×