Erlent

Deilt um háhælaskyldu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bresk stéttarfélög deila nú við vinnuveitendur um það hvort hægt sé að skylda konur til að ganga í háhælaskóm í vinnunni.

Forsvarsmenn stéttarfélaga telja það algjörlega óforsvaranlegt að sumir vinnuveitendur krefjist þess að kvenkyns starfsmenn þeirra gangi í skóm með háum hælum í vinnunni. Hafa stéttarfélögin fengið lækna og fótaaðgerðafræðinga í lið með sér og halda því fram að langur vinnudagur á háum hælum geri fótunum ekkert gott, þvert á móti.

Ýmsir hafa skoðanir á málinu og má þar á meðal nefna þingkonuna Nadine Dorries sem heldur því fram að þessi afskiptasemi stéttarfélaganna sé út í hött. Konurnar virki hreinlega allt of lágvaxnar, til dæmis á vinnustöðum þar sem margir karlmenn starfa, gangi þær um á flatbotna skóm. Dorries segist til dæmis sjálf ekki vera nema tæpir 160 cm á hæð og henni detti ekki í hug að láta sjá sig í þinginu öðruvísi en á háum hælum.

Það er engu að síður staðreynd að tvær milljónir veikindadaga í Bretlandi ár hvert eru vegna verkja í fótum svo hugsanlega væri snjallt að sigla milli skers og báru í hælanotkuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×