Innlent

Sektaður um tvær milljónir fyrir hvíldarleysi

Vörubifreið. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Vörubifreið. Myndin tengist ekki fréttinni beint.

Vörubílstjóri var dæmdur til þess að greiða 2,1 milljón fyrir að virða ekki lögbundin hvíldartíma vörubílstjóra ítrekað. Það var Héraðsdómur Suðurlands sem dæmdi manninn til þess að greiða sektina en upphaf málsins má rekja til apríl á síðasta ári.

Þá höfðu starfsmenn Vegagerðarinnar afskipti af vörubílstjóranum. Þeir tóku gögn af rafrænu ökumannskorti sem var í vörubílnum og við nánari skoðun kom í ljós að bílstjórinn hafði ekki hvílt sig í fimmtán skipti.

Bílstjórinn krafðist sýknu meðal annars af því að hann hélt því fram að engin rannsókn hefði farið fram hjá Vegagerðinni eða lögreglunni en lögreglan hefði ekki rannsakað sérstaklega hvaða farm hann hefði verið að flytja né akstursleiðir og akstursskilyrði og þannig sinnt rannsóknarskyldu sinni sem leiða mætti í ljós sekt eða sýknu.

Þá hélt hann því fram að leiðbeiningar með ökuritanum hafi verið á ensku og hann hefði ekki skilið þær til fulls. Þess vegna hefði hann ekki slökkt á ökuritanum þegar hann var í hvíld.

Við ákvörðun refsingarinnar var litið til þess að maðurinn hafði ítrekað ekið þungaflutningabifreið sinni dögum saman án þess að taka lögboðna hvíld.

Með þessari háttsemi sinni hefði maðurinn aukið á þá hættu sem stór og þung flutningatæki skapa á vegum úti með því að aka allt upp í rúmlega ellefu klukkustundir samfleytt án þess að taka sér nokkra hvíld. Greiði maðurinn ekki sektina þarf hann að sæta fangelsi í sextíu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×