Innlent

Konur heilbrigðari en karlar

Rúnar Vilhjálmsson segir forvarnir mikilvægar á krepputímum því rannsóknir sýni að hætta sé á að fólk lifi óheilsusamlegra lífi á krepputímum.
Fréttablaðið/Stefán.
Rúnar Vilhjálmsson segir forvarnir mikilvægar á krepputímum því rannsóknir sýni að hætta sé á að fólk lifi óheilsusamlegra lífi á krepputímum. Fréttablaðið/Stefán.
Þeir sem meira eru menntaðir eru líklegri til að finna sér heilsusamlegri lífsstíl en þeir sem minni menntun hafa og konur lifa almennt heilsusamlegra lífi en karlar. Þetta kemur fram í greiningu Rúnars Vilhjálmssonar, prófessors í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, sem hann byggir á umfangsmiklum könnunum sem gerðar voru á heilsufari Íslendinga á árunum 2006 til 2007.

„Ég ákvað að skoða svokallaða lífsstílsþætti sem hefð hefur verið fyrir að tengja heilsufari síðan gerðar voru viðamiklar rannsóknir í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum þar sem sýnt var fram á að tengsl eru á milli heilsusamlegs lífsstíls og heilbrigðis.“ Lífsstílsþættirnir sem kannaðir voru hjá fólki voru eftirfarandi, líkamsþyngd, hvort fólk borðaði aukabita á milli mála, hvort það borðaði morgunmat, hversu lengi fólk svaf á næturnar, hvort það hreyfði sig, hvort það reykti og hversu mikið það drakk af áfengi í viku að jafnaði. Í stuttu máli sagt eru gefin stig fyrir það þegar fólk svarar á þá lund sem heilsusamlegt þykir, stig fæst til dæmis fyrir að reykja ekki, vera í kjörþyngd, drekka í hófi og svo framvegis.

Meðal þess sem kom í ljós þegar Rúnar fór að kanna lífsstíl Íslendinga er að flestir lifa frekar heilbrigðu lífi, fá stig fyrir að minnsta kosti einhverja af þáttunum. Annað sem kom í ljós var að það voru ekki sérlega sterk tengsl á milli þáttanna, það er að segja að þó að fólk stundaði óhollustu af einhverju tagi þá fékk það kannski stig fyrir aðra lífsstílsþætti. „Það voru margir í blönduðum lífsstíl, hvorki mjög óhollum né mjög hollum,“ segir Rúnar.

Töluverður munur kom þó á daginn þegar rýnt var í niðurstöðurnar. „Eftir því sem fólk verður eldra borðar það til dæmis frekar morgunmat. Eldra fólki er hins vegar hættara við að vera yfir kjörþyngd.“

Þegar einstakir hópar voru skoðaðir betur kemur í ljós að þeir sem eru meira menntaðir lifa almennt hollara lífi en þeir sem minna menntaðir eru. Einnig lifa konur heilbrigðara lífi en karlar að meðaltali.

Tekjur og búseta skiptu líka máli, þótt tengslin væru ekki jafn afgerandi. Þeir tekjuhærri lifðu heilsusamlegra lífi en þeir tekjulægri og íbúar höfuðborgarsvæðisins að einhverju leyti líka.

Rúnar segir ávinninginn af heilsusamlegum lífsstíl augljósan og þessar niðurstöður gefi vísbendingu um gott almennt heilsufar Íslendinga. Hins vegar hafi erlendar rannsóknir sýnt að efnahagslegar þrengingar hafi neikvæð áhrif á lífsstíl og því sé full ástæða fyrir stjórnvöld að sinna vel forvarnarstarfi og heilsueflingarstarfi, það sé aldrei mikilvægara en á krepputímum.

sigridur@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×