Erlent

Breskur sjúklingur heldur matarbingó

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sýnishorn af réttunum.
Sýnishorn af réttunum.

Sjúklingi á breskum spítala ofbýður svo maturinn sem fyrir hann er borinn að hann hefur birt myndir af honum á Netinu og býður almenningi að reyna að giska á um hvaða rétti sé að ræða.

Ekki er ljóst hver sjúklingurinn er en hann er 47 ára gamall og liggur á sjúkrahúsi einhvers staðar á Suðvestur-Englandi. Hann dregur ekki fjöður yfir þá skoðun sína að hann telur matinn á sjúkrahúsinu hreinan viðbjóð og heldur úti netsíðu með því sem hann kallar matarbingó. Þar birtir hann myndir af matnum sem honum er borinn og biður netverja vinsamlegast að reyna að giska á hvað á diskinum sé hverju sinni.

Að hans sögn hefur engum tekist að giska réttilega á neitt hingað til og reyndar er það engin furða ef marka má sýnishornin sem vefsíða Telegraph bregður upp og berja má augum á Vísi. Maðurinn mun þurfa að liggja nokkurn tíma á sjúkrahúsinu vegna sýkingar í beinmerg og líst hreinlega ekki á blikuna. Breska heilbrigðiseftirlitið segir meirihluta sjúklinga á spítulum landsins ánægða með mat sinn og allt sé gert til að gera henn sem best úr garði. Þessi tiltekni sjúklingur getur þó engan veginn fallist á að svo sé.

Síðu mannsins má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×