Innlent

Segir meiri læti í þinginu nú en í hruninu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Pétur Blöndal segir að það sé allt of mikið óðagot í þinginu. Mynd/ GVA.
Pétur Blöndal segir að það sé allt of mikið óðagot í þinginu. Mynd/ GVA.
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir allt of mikið óðagot vera við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár. Frumvarpinu var dreift á Alþingi í kvöld fyrir aðra umræðu.

„Jafnvel í hruninu í fyrra voru ekki svona læti í þinginu þó að mikið hafi gengið á. Það er verið að gera stórfelldar breytingar á skattakerfinu með nánast engum fyrirvara," segir Pétur. Pétur segist telja það vera niðurstöðu nefndarfunda um frumvarpið að sá fyrirvari sem atvinnulífið, laungreiðendur og verslanir hafi til stefnu þangað til nýja skattkerfið tekur gildi sé allt of lítill.

Pétur gerði athugasemd við fundarstjórn forseta þegar fjárlagafrumvarpinu og breytingatillögum með því var dreift á Alþingi í dag. „Ég gerði alvarlega athugasemd við það að það væri verið að dreifa fjárlagafrumvarpi án þess að efnahags- og skattanefnd hefði lokið umfjöllun um málið," segir Pétur. Nefndin hafi verið að taka inn gesti og fara í gegnum umsagnir þangað til klukkutíma fyrir útbýtingarfund. Efnahags- og skattanefnd eigi að skila fjárlaganefnd umsögn um frumvarpið en það hafi ekki tekist. Pétur segir að efnahags- og skattanefnd sé enn að fjalla um málið þótt búið sé að útbýta frumvarpinu og það sé brot á þingsköpum að hans mati.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×