Innlent

Meirihluti barna gengur í skólann

Langflest börn í Grafarvogi og á Kjalarnesi gengu í skólann í nóvember. Hlutfallið er töluvert lægra í öðrum hverfum, og lægst er það í Miðborg og Hlíðum. mynd/teitur
Langflest börn í Grafarvogi og á Kjalarnesi gengu í skólann í nóvember. Hlutfallið er töluvert lægra í öðrum hverfum, og lægst er það í Miðborg og Hlíðum. mynd/teitur

Tæplega níutíu prósent grunnskólabarna í Grafarvogi og á Kjalarnesi fara fótgangandi í skóla. Þetta kemur fram í könnun um ferðavenjur Reykvíkinga, sem umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar lét Capacent Gallup gera fyrir sig í nóvember. Hlutfallið er rúmum tuttugu prósentum hærra þar en í öðrum hverfum borgarinnar, en hverfisráð Grafarvogs hefur tekið upp græna samgöngustefnu.

Sams konar könnun var gerð fyrir borgina í fyrra. „Þar kom fram að í sumum hverfum hefur skapast hálfgerður vítahringur. Foreldrar þora eiginlega ekki annað en að keyra börnin sín í skólann af því að þeir eru hreinlega hræddir um að þau verði fyrir bíl," segir Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Hann lagði til í umhverfis- og samgönguráði borgarinnar eftir könnunina í nóvember í fyrra að mótuð yrði slík stefna fyrir borgina í samvinnu við hverfin. Það náði ekki fram að ganga strax, en var samþykkt á fundi ráðsins síðastliðinn þriðjudag.

Dofri sat einnig í hverfisráði Grafarvogs og var málið tekið upp þar í millitíðinni og einróma samþykkt. „Mér var falið að stjórna vinnunni og það skapaðist gríðarleg stemning fyrir þessu í hverfinu." Stefnan fólst bæði í því að hvetja foreldra til að ganga með börnum sínum í skólann, og hvetja þá til að sameinast um að keyra börnin, til að minnka umferð. Stefnan var kynnt fyrir foreldrum og börnum í haust.

Tillagan um græna samgöngustefnu var einróma samþykkt í umhverfis- og samgönguráði síðastliðinn þriðjudag. „Það þýðir að nú mun umhverfis- og samgöngusvið muni bjóða öllum hverfisráðum borgarinnar aðstoð við gerð samgöngustefnu," segir Dofri. „Ég á von á að hverfisráðin taki því tilboði fagnandi. Það vilja allir draga úr umferð í hverfunum."

thorunn@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×