Innlent

Hannes kemur Ögmundi til varnar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Prófessor Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir að Kastljóssmenn hafi sýnt ódrengskap þegar þeir skýrðu síðastliðið föstudagskvöld frá því af hverju Ögmundur Jónasson baðst undan viðtali daginn áður. Áður hafa Björn Bjarnason og Tryggvi Þór Herbertsson, flokksbræður Hannesar, tekið upp hanskann fyrir Ögmund og gagnrýnt fréttaflutning Kastljóss.

Í Kastljósi síðastliðið föstudagskvöld var Ögmundur sagður hafa verið undir áhrifum áfengis við atkvæðagreiðslu á Alþingi á fimmtudaginn enda hefði hann neitað viðtali með vísan til þess. Fyrr um daginn hafði Ögmundur fengið sér vínglas.

Hannes gefur lítið fyrir þetta í pistli á heimasíðu sinni. Ekki sé bannað að fá sér vín með hádegismatnum og raunar sé ekkert ámælisvert við það.

„Eftir það geta menn gert sumt, en ekki annað. Þeir geta til dæmis ekki ekið sjálfir heim til sín, en þeir geta svo sannarlega opnað útidyrahurðina með lykli. Hið sama er að segja um þingmenn. Þeir eiga ekki að taka til máls, ef þeir finna á sér, en auðvitað geta þeir greitt atkvæði, þegar verið er að afgreiða mál, sem lengi hafa verið í undirbúningi," segir prófessorinn.

Ögmundur er heiðarlegur stjórnmálamaður, að mati Hannesar. „Hvað sem um Ögmund Jónasson má segja, vita allir, að hann er heiðarlegur stjórnmálamaður og ekki falur. Hann myndi aldrei hafa haldið neina Borgarnesræðu til varnar þeim auðjöfrum, sem grunaðir voru um ámælisverð eða jafnvel ólögleg vinnubrögð, eins og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar gerði. Ég get ekki heldur ímyndað mér, að hann hefði farið dauðadrukkinn í ræðustól eins og einn þingmaður Samfylkinginnar (úr fjölmiðlastétt) gerði fyrir skömmu."


Tengdar fréttir

Segja Ögmund hafa kosið undir áhrifum áfengis

Ögmundur Jónasson var undir áhrifum áfengis þegar hann kaus á Alþingi í gær samkvæmt Kastljósi í kvöld. Ekki er ljóst hvaða mál hann var að kjósa um. Í frétt Kastljóss kom fram að Ögmundur hefði beðist undan viðtali þar sem hann hefði verið undir áhrifum. Fréttamaður Kastljóss hafði farið sjálfur niður á Alþingi þar sem hann fékk afsvar um viðtal í mynd.

Ómaklegt að gera Ögmund að blóraböggli

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, tekur upp hanskann fyrir Ögmund Jónasson, þingmann VG, í pistli á heimasíðu sinni og gerir athugasemdir við fréttaflutning Kastljóss.

Ögmundur fann til áhrifa - mun ekki biðja Alþingi afsökunar

„Ég drakk vín með mat,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, en Kastljós greindi frá því að hann hefði beðist undan viðtali vegna þess að hann hefði verið undir áhrifum áfengis. Við þessu gengst Ögmundur en tekur fram að hann hafi ekki verið mjög ölvaður. Hann hafði borðað fyrr um daginn og fengið sér vín með matnum. Hann fann til áhrifa og ákvað að fara ekki í viðtal við Kastljósið af prinsipp ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×