Innlent

Vilja fækka ferðum til Eyja

Herjólfur. Bæjaryfirvöld spyrja hversu langt eigi að ganga í skerðingu samgangna við Eyjar.
fréttablaðið/óskar p. friðriksson
Herjólfur. Bæjaryfirvöld spyrja hversu langt eigi að ganga í skerðingu samgangna við Eyjar. fréttablaðið/óskar p. friðriksson

Bæjarráð Vestmannaeyja harmar að sú hugmynd sé komin upp að fækka ferðum Herjólfs enn frá því sem nú er. Ráðið fjallaði um málið í gær og sagði hugmyndirnar færa samgöngur til Eyja langt niður fyrir skynsamleg sársaukamörk, eins og segir í frétt á Eyjar.is.

Vegagerðin hefur óskað eftir því að kannaðir verði möguleikar til lækkunar kostnaðar með því að fækka ferðum Herjólfs um tvær á viku tímabilið janúar til og með apríl á næsta ári.

Rekstrarstjóri Eimskipa segir í bréfi til bæjaryfirvalda að mat Eimskipa sé að sársaukaminnst sé að farin verði ein ferð á miðvikudögum og seinni ferð þá sleppt. Einnig er lagt til að farin verði ein ferð á laugardögum.

Bæjarráð telur að samfélagið geti ekki sætt sig við skerðingu frá því sem nú er, en tvær ferðir eru grunnáætlun ferjunnar. Minnt er á að innan skamms verði hætt með flug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, Bakkaflug liggi niðri, hætt hafi verið við nýsmíði á ferju og engar upplýsingar fáist um gjaldskrá og áætlun Herjólfs í Landeyjahöfn.

Bæjarráð mun fela bæjarstjóra að gera grein fyrir þeirri afstöðu bæjarráðs að það muni ekki taka afstöðu til þess hvort eða hvaða ferðir verði felldar niður fyrr en tilkynning um slíka ákvörðun berst frá samgönguyfirvöldum. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×