Erlent

Yfirmaður spænsku lögreglunnar féll í sprengjuárás

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. Mynd/AP
Yfirmaður í hryðjuverkasveit spænsku lögreglunnar féll í sprengjuárás hryðjuverkamanna á Norður-Spáni í morgun. Aðskilnaðarhreyfingu ETA í Baskalandi er kennt um. Reynist það rétt er árásin sú fyrsta mannskæða sem samtökin hafa framið í hálft ár.

Eduardo Pueyes Garcia var aðalvarðstjóri í sérsveit lögreglunnar í Bilbaó í Baskalandi á Norður-Spáni.

Innanríkisráðherra í Baskalandi staðfesti að hann hefði látist samstundis í sprengjutilræði í morgun. Bifreið hans sprakk um leið og hann gangsetti hana þegar hann var að leggja af stað til vinnu.

Samkvæmt Sky fréttastöðinni var Garcia einn helsti sérfræðingur í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum á svæðinu.

Talið er að ETA, aðskilnaðarhreyfing baska, hafi myrt Garcia en samtökin hafa þó ekki lýst ódæðinu á hendur sér. ETA hefur barist fyrir sjálfstæðu ríki baska á Norður-Spáni síðan hreyfingin var stofnuð árið 1959. Fleiri en 800 manns hafa fallið í árásum þeirra. Sprengjuárásin í morgun mun fyrsta mannskæða árás ETA í rúmlega hálft ár eða frá því baskneskur kaupsýslumaður var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í desember.

Jose Luis Zapatero, forsætisráðherra Spánar, sleit friðarviðræðum við fulltrúa ETA í lok árs 2006 eftir sprengjuárás á alþjóðaflugvelli í Madríd. Tveir féllu í þeirri árás.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×