Erlent

Bretar fákunnandi í ritningunni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Forsvarsmenn bresku kirkjunnar hafa þungar áhyggjur af því hve illa Bretar eru að sér í Biblíunni.

Staðan þykir orðin ískyggileg í kjölfar nýrrar könnunar þar sem sú blákalda staðreynd var leidd fram í dagsljósið að aðeins tæplega einn af hverjum 20 Bretum getur að meðaltali þulið öll tíu boðorðin upp. Tæpur helmingur Breta hefur ekki hugmynd um að sá siður að gefa jólagjafir er kominn til vegna gjafanna sem vitringarnir þrír gáfu frelsaranum nýfæddum en þar var um að ræða gull, reykelsi og myrru. Þá könnuðust 60 prósent ekki við miskunnsama samverjann né gátu kastað fram nokkrum fróðleik um þann ágæta mann.

Séra Brian Brown, sem Reuters-fréttastofan ræddi við, segir það ljóst að kirkjan þurfi að leggjast í heilmikla vinnu við að kynna hina helgu bók fyrir almenningi, einkum þeim sem séu 45 ára og yngri en hjá þeim aldurshópi sé vankunnáttan mest áberandi. Brown segir samfélagið byggjast að mörgu leyti á ritningunni og það sé skelfilegt þegar ungt fólk annaðhvort misskilji hana eða hafi varla heyrt hennar getið.

Dæmi voru um það í könnuninni að fólk héldi að Davíð og Golíat væru heiti á skipum og að teiknimyndin The Lion King væri byggð á sögunni um Daníel sem var varpað fyrir ljón en lifði af á undraverðan hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×