Lífið

Hituðu upp fyrir Peaches

Steed Lord vinnur hörðum höndum að því að koma sér og tónlist sinni á framfæri. mynd/Dröfn Ösp snorradóttir
Steed Lord vinnur hörðum höndum að því að koma sér og tónlist sinni á framfæri. mynd/Dröfn Ösp snorradóttir
Íslenska hljómsveitin Steed Lord hitaði upp fyrir tónlistarkonuna Peaches á tónleikum hennar í Los Angeles fyrir stuttu. Þrír meðlimir Steed Lord fluttu búferlum til borgar englanna fyrr í sumar og vinna nú ötullega að tónlist sinni.

„Peaches bað okkur persónulega um að túra með sér um vesturströnd Bandaríkjanna. Við kynntumst henni og manni hennar í Berlín þegar við spiluðum þar fyrir þremur árum. Þau eru frábær og hafa alltaf stutt mjög við bakið á okkur. Við gátum þó aðeins spilað á þrennum tónleikum með henni því við vorum sjálf á leið í tónleikaferðalag um Evrópu,“ útskýrir Svala Björgvinsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar. Aðspurð segir hún að gaman hafi verið að hita upp fyrir Peaches því hún dragi að sér skemmtilega og líflega áhorfendur. „Það er líka alltaf gaman að spila fyrir svona mikinn fjölda fólks, það er eins og að fá adrenalínsprautu,“ segir Svala. Mikill fjöldi fólks sótti tónleikana og á meðal áhorfenda voru einnig þekktir einstaklingar á borð við Peaches Geldolf, dóttur hungur­popparans Bobs Geldof, og fatahönnuðurinn Jeremy Scott.

Aðspurð segir Svala hljómsveitina vekja eftirtekt vegna þjóðernis­ins og segir fólk almennt forvitið um land og þjóð. „Við skerum okkur úr vegna þess að við erum Íslendingar, fólki finnst það áhugavert. En að baki velgengninni liggur líka rosalega mikil vinna og við erum núna að uppskera það sem við höfum sáð. Okkur gengur vel og það er vegna þess hve mikið við vinnum að því og vegna þess að við elskum það sem við gerum. Það kemur aldrei neitt upp í hendurnar á manni, maður þarf að vinna fyrir því og þannig hefur okkar hugarfar alltaf verið.“

Svala, Einar og Eddi munu eyða jólunum heima á Íslandi og dvelja hér í nokkra daga. Hún segir jólafríið vera fyrsta frí hljómsveitar­meðlima í langan tíma. „Mér finnst alltaf jólalegast á Íslandi. Þegar við komum heim verður bara slappað af og borðað mikið af góðum mat.“

Eftir jólafrí fer hljómsveitin aftur til vinnu, en hún er um þessar mundir að semja og taka upp nýtt efni fyrir plötu sem kemur út eftir áramót.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.