Erlent

Hvíta húss boðflennum vísað á dyr

Óli Tynes skrifar
Michaele og Tariq Salahi heilsa upp á Barack Obama.
Michaele og Tariq Salahi heilsa upp á Barack Obama.

Það hefur nú komið í ljós að hjónin sem gerðust boðflennur í Hvíta húsinnu voru ekki í því hlutverki í fyrsta skipti.

Þau Tareq og Michaele Salahi segja raunar nú að þau hafi alls ekki verið neinar boðflennur. Þau hafa grátið yfir því í sjónvarpsviðtölum að umfjöllun um málið hafi gersamlega lagt líf þeirra í rúst.

Ekki á gestalista

Blaðafulltrúi Hvíta hússins segir hinsvegar að hjónin hafi ekki verið á gestalistanum. Fólk sem sé ekki á gestalista en mæti samt sé boðflennur.

Nú hefur komið í ljós að Salahi hjónin mættu í kvöldverðarboð hjá Samtökum svartra þingmanna 26. semtember síðastliðinn. Þetta var fjáröflunar-kvöldverður og Barack Obama var aðalræðumaður kvöldsins.

Mættu prúðbúin

Talskona Samtaka svartra þingmanna staðfesti í samtali við Associated Press fréttastofuna að hjónin komu á staðinn. Í fjáröflunarkvöldverðum greiða gestirnir mismunandi háar upphæðir fyrir sæti, eftir því hversu nálægt borð þeirra er háborðinu þar sem meðal annars aðalræðumaður kvöldsins situr.

Salahi hjónin völdu sér borð þar sem sætið kostaði tuttugu þúsund dollara eða tæplega tvær og hálfa milljón íslenskra króna.

Við svona tækifæri verða gestir auðvitað að hafa með sér miðana og á þeim er borðaskipanin sýnd og hvar hver á að sitja.

Megum við sjá miðana ykkar?

Fólkið sem hafði greitt fjörutíu þúsund dollara fyrir sætin sín tvö kvartaði auðvitað þegar það kom að öðrum í þeim.

Salahi hjónin voru þá beðin um að framvísa sínum miðum. Þegar þau gátu það ekki voru þau leidd á dyr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×