Erlent

CIA vill bankamenn í vinnu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Atvinnulausir bankamenn eru nú eftirsóttir af nýjum vinnuveitanda í Bandaríkjunum, sjálfri leyniþjónustunni.

Frá Wall Street til CIA, þetta er það sem nú blasir við mörgum fjármálasérfræðingnum vestanhafs. Meðal hæfisskilyrða er að geta staðist lygapróf með þar til gerðum búnaði og hafa meiri löngun til að þjóna ættjörðinni en veskinu þínu. Og hver hefur það ekki?

Leyniþjónustan auglýsir nú sérstaklega eftir hagfræðingum og öðrum sem vit hafa á hagkerfum og geta rannsakað misferli, undanskot og óhreint mjöl í hinum fjölmörgu pokahornum hagkerfa heimsins. Atvinnuviðtöl hefjast á mánudaginn og fara að sjálfsögðu fram á leynilegum stað í New York. Kannski á Wall Street, hver veit?

Ron Patrick, starfsmannastjóri leyniþjónustunnar, segir að þegar hafi nokkur hundruð umsóknir borist og öruggt sé að hæfileikar þeirra sem verða ráðnir verði notaðir á töluvert annan hátt en í bönkunum. Launin eru góð, allt að 160.000 dollarar í árslaun fyrir reynslubolta og bónusar ofan á það ef vel gengur en áður en umsækjandinn landar þessu draumastarfi þarf hann að undirgangast ítarlega læknisskoðun og bakgrunnsrannsókn auk þess sem fyrr var nefnt.

Meðal þess sem nýju sérfræðingarnir munu aðstoða CIA við að rannsaka er bandaríska bankahrunið í heild sinni og ábyrgðarmenn þess. Þarna er sem sagt að myndast bandaríska útgáfan af sérstökum saksóknara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×