Innlent

Enginn sparnaður í niðurskurði

Þórarinn Tyrfingsson
Þórarinn Tyrfingsson

„Það verður að finna aðrar leiðir til að spara en að skera niður framlög til áfengissjúklinga,“ segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ, um boðaðan 70 milljóna niðurskurð til samtakanna. „Enginn sparnaður er í að rústa áfengismeðferð, vandinn gufar ekki upp og það er ljóst að þeir sem eiga við vandamál að stríða munu lenda á bráðadeild og öðrum deildum spítalans, róstur munu aukast á heimilum og svo framvegis.“

Þórarinn segir framlög til SÁÁ hafa sætt það miklum niðurskurði á árinu að frekari niðurskurður muni skerða þjónustu verulega, færri muni komast í meðferð en fyrr.

Tuttugu þúsund manns hafa ritað undir áskorun til þingmanna um að skera ekki framlög til samtakanna. Að mati Þórarins sýnir fjöldinn mikinn stuðning þjóðarinnar við störf SÁÁ sem rekur sjúkrahúsið Vog auk göngudeilda í Reykjavík og á Akureyri og áfangaheimili í Reykjavík.

Til að vekja athygli á málinu standa samtökin fyrir uppákomu á Austurvelli í dag klukkan fimm, Bubbi og Páll Óskar munu syngja og verður kveikt á kertum „sem þakklætisvott fyrir þau líf sem starfsemi SÁÁ hefur bjargað og bætt“, eins og segir á heimasíðu samtakanna.

Landsmenn eru hvattir til að mæta og sýna samstöðu með baráttu samtakanna gegn áfengis- og fíkniefnavanda. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×