Viðskipti innlent

Naskar ehf. verða lánveitendur á Uppsprettu.is

Töluvert af einstaklingum hefur skráð sig sem lánveitendur á vefsíðuna Uppspretta.is og nú hefur fjárfestingafélagið Naskar ehf. bæst í hópinn. Á bak við Naskar eru ellefu íslenskar athafnakonur sem ætla sér að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað hérlendis á næstu árum.

Í tilkynningu segir að fjárfestingafélagið var stofnað í apríl 2008. Naskar ehf. standa að fjáfestingu á aðlþjóðlegum hlutabréfamörkuðum ásamt því að fjáfesta í nýsköpun og framþróun innanlands. Fjárfestingarstefna og samfélagsleg ábyrgð Naskra fellur vel að markmiðum Uppsprettu.

Vefur Uppsprettu fór í loftið 1. október síðast liðinn og hafa viðtökur verið framar vonum, um 8000 heimsóknir voru á vefinn fyrstu 10 dagana. Nú hafa 250 notendur skráð sig, bæði lánveitendur og lántakendur, og 24 lánsumsóknir hafa verið gerðar.

Allir geta orðið lánveitendur á Uppsprettu, bæði einstaklingar og fyrirtæki, en þátttakendur verða að vera fjárráða og vera með íslenska kennitölu til að unnt sé að auðkenna notandann.

Örlán, eins og hér um ræðir, eru frá 50.000 til 3.000.000 krónur og getur lánstími verið allt að 3 ár. Á bakvið hvert lán geta verið margir lánveitendur og velja lánveitendur þá lántakendur sem þeim lýst vel á á grundvelli upplýsinga frá lántakandanum og út frá greiðsluhæfi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×