Erlent

Sekt og fangelsi fyrir að kvarta yfir sjúkrahúsi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Unnið að gerð veggspjalda fyrir forsetakosningarnar í Indónesíu sem haldnar verða 8. júlí. Susilo Bambang Yudhoyono forseti, sem sækist eftir endurkjöri, segir að indónesísk lög verði að vera gegnsæ og réttlát.
Unnið að gerð veggspjalda fyrir forsetakosningarnar í Indónesíu sem haldnar verða 8. júlí. Susilo Bambang Yudhoyono forseti, sem sækist eftir endurkjöri, segir að indónesísk lög verði að vera gegnsæ og réttlát. MYND/Reuters

Mál indónesískrar móður sem var fangelsuð og sektuð fyrir að senda tölvupóst hefur vakið harðar deilur innan stjórnkerfisins þar í landi.

Prita Mulyasari vann sér ekki annað til saka en að senda tölvupóst til nokkurra vina og ættingja þar sem hún kvartaði yfir lélegri þjónustu á einkasjúkrahúsi sem hún leitaði til í veikindum. Pósturinn lak út og sjúkrahúsið lögsótti Mulyasari og sakaði hana um að rægja lækna og sérfræðilið sjúkrahússins að ósekju.

Indónesísk lög eru með þeim flóknustu sem finnast á byggðu bóli og margur lagabókstafurinn þar í landi er síðan á hollenska nýlendutímanum. Þá er spilling mikil innan stjórnkerfisins og ekkert launungarmál að þeir sem eiga peninga eða fara með einhver völd geta haft töluverð áhrif á niðurstöðu dómsmála.

Omni-sjúkrahúsið er að sjálfsögðu í þeim hópi og hlaut hin ósjálfbjarga móðir þriggja vikna gæsluvarðhald auk þess að þurfa að greiða sekt sem tekur hana vafalítið alla ævina. Þegar endanlegur dómur fellur gæti hún átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi fyrir að dreifa ósannindum á Netinu.

Facebook-notendur hafa nú stofnað síðu til að vekja athygli á máli Mulyasari og berjast fyrir réttindum hennar en mál hennar er eitt fjölmargra af svipuðum toga þar sem vafasamur lagabókstafur og stjórnkerfi Indónesíu leggst á eitt gegn mannréttindum þegnanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×