Innlent

Fimm ný svínaflensu tilfelli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á síðastliðnum tveimur sólarhringum voru fimm ný H1N1, eða svokölluð svínaflensutilfelli, staðfest og heildarfjöldi staðfestra tilfella því 51 samtals. Enginn er alvarlega veikur.

Samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnarlækni hefur töluvert af fyrirspurnum borist varðandi barnshafandi konur. Sóttvarnarlæknir segir að barnshafandi konur séu ekki í aukinni hættu á að sýkjast af inflúensunni en svo virðist sem hætta á alvarlegri fylgikvillum sé smávægilega aukin miðað við fólk almennt. Sú hætta sé hins vegar ekki það mikil að ástæða sé til sérstakra varúðarráðstafana til að forða þeim frá sýkingu. Sýkist þunguð kona af inflúensu geti verið ástæða til að meðhöndla hana með veirulyfjum að undangengnu mati læknis.

„Mesta ferðamannhelgi ársins gengur nú í garð og mikið er um mannamót. Það er því ástæða til að ítreka að allir sem eru með inflúensulík einkenni (skyndilegur hiti, beinverkir, höfuðverkur, hálssærindi, hósta) eiga að halda sig heima í sjö daga frá upphafi þeirra, fara vel með sig og forðast að smita aðra. Þótt inflúensan sé yfirleitt væg er nauðsynlegt að hafa í huga að fólk með undirliggjandi sjúkdóma getur verið viðkvæmari fyrir henni en þeir sem hraustir eru og fengið alvarleg einkenni," segir í frétt á vef Ríkislögreglustjóra.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×