Innlent

Bróðir meints fjársvikara vill fá hann heim til Íslands

Sindri Sindrason skrifar

Bróðir manns sem situr í bresku fangelsi fyrir fjármálamisferli biður þjóðina um að lána sér pening svo bróðir hans komist til konu sinnar og átta mánaða gamals barns. Til að ganga laus gegn tryggingu þarf fjölskyldan að reiða fram tuttugu milljónir króna.

Í október árið 2005 gerðu starfsmenn efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra húsleit hjá Jóhannesi B. Skúlasyni og fyrirtæki hans Skúlason. Var það að ósk breskrar lögreglu um samstarf við rannsókn skipulagðra fjársvika og peningaþvættis.

Svikin voru talin felast í kerfisbundinni sölu hlutabréfa í fyrirtækjum með blekkingum, röngum og villandi upplýsingum um fyrirtækið og væntanlega skráningu bréfa í kauphöll. Brotin voru talin hafa staðið í nokkur misseri en umfang hinna meintu svika námu um 200 milljónum króna.

Jóhannes var síðan handtekinn í júní síðastliðnum þegar hann fór í viðskiptaferð til Bretlands. Mál hans verður tekið fyrir í haust en tryggingafé er um 20 milljónir kóna. Og bróðir hans Óskar biður þjóðina um hjálp.

Óskar hefur miklar áhyggjur af bróður sínum sem hann trúir að sé saklaus. Þrátt fyrir það dúsi hann í bresku fangelsi og gæti gert það í mörg ár til viðbótar.

Þá gagnrýnir Óskar starfsfólk utanríkisráðuneytisins fyrir aðgerðaleysi og fyrir að sýna málinu lítinn skilning. Hann segir fjölskylduna í miklu uppnámi, ekki síst konuna hans sem er nú ein með átta mánaða gamalt barn þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×