Erlent

Faðir Grænu byltingarinnar látinn

Óli Tynes skrifar

Margir sérfræðingar eru þeirrar skoðunar að með grænu byltingunni hafi verið komið í veg fyrir alheims hungursneyð á síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Með henni hafi hið minnsta einum milljarði manna verið bjargað frá hungurdauða.

Norman Borlaug var fremstur í flokki vísindamanna sem endurbættu nytjajurtir með þeim árangri að matvælaframleiðsla í heiminum meira en tvöfaldaðist á milli 1960 og 1990.

Í Pakistan og á Indlandi sem högnuðust hvað mest á nýju plöntunum fjórfaldaðist kornframleiðsla á sama tímabili.

Borlaug notaði líftækni til þess að þróa plöntur sem bæði margfölduðu uppskeruna og stóðu af sér sjúkdóma. Þetta átti við um meðal annars korn, hveiti og hrísgrjón.

Fyrir framlag sitt hlaut hann friðarverðlaun Nóbels árið 1970. Hann var einnig sæmdur æðsta heiðursmerki sem Bandaríkin veita óbreyttum borgurum fyrir frábæra frammistöðu.

Borlaug var níutíu og fimm ára gamall og löngu sestur í helgan stein. Hin síðari ár var hann ákveðinn talsmaður þess að nota erfðatækni til þess að endurbæta nytjajurtir.

Hann hafði litla trú á lífrænni ræktun. Bæði væri uppskeran af þeim miklu minni en ella og auk þess væri hún ekki á nokkurn hátt næringarríkari eða betri en hefðbundin framleiðsla.

Borlaug sagði að mannkyninu fjölgaði æ hraðar og nauðsynlegt væri að nota öll hugsanlegt ráð til að auka matvælaframleiðsluna í samræmi við það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×