Innlent

Hælisleitandi fékk hlýjar móttökur

Nour Al Azzawi, 19 ára íraski hælisleitandinn sem sendur var til Grikklands í haust kom til landsins í gærkvöld. Hann fékk hlýjar móttökur frá vinum sínum á Leifsstöð og var feginn að vera kominn til Íslands.

Nour hefur verið veitt tímabundið leyfi til að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans um dvalar-og atvinnuleyfi er í vinnslu. Hann fékk undanþáguna vegna ungs aldurs og annarra þátta. Hann kom til landsins fyrir tveimur árum og sótti um hæli en var synjað.

Nour var sendur til Grikklands ásamt þremur öðrum hælisleitendum í haust. Stuðningsmenn hans söfnuðu hátt í 400 þúsundum króna fyrir hann. Peningarnir nýttust honum vel í Grikklandi auk þess sem fargjaldið til Íslands var greitt úr þeim sjóði. Nour lenti á Keflavíkurflugvelli seint í gærkvöld og tóku vinir hans á móti honum.

Helena Stefánsdóttir er ein þeirra og hefur annast mál hans hér á landi. „Hann var náttúrulega rosalega þreyttur en mjög glaður. Ég held að hann hafi verið í hálfgerðu taugaáfalli, hann var svo spenntur því það var svo mikið af fólki að taka á móti honum. Hann vissi ekki hvort hann ætti að gráta eða hlæja og vildi faðma alla í einu."

Helena segir ferlið hafa verið langt og strangt og nú taki við biðtími eftir afgreiðslu útlendingastofnunar. Hún segir Nour heilan heilsu eftir dvölina í Grikklandi. Hann stefni á að læra íslensku og hefja störf um leið og hann fái atvinnuleyfi.

Helena segist vona að hann fái að dvelja hér á landi þar sem hann eigi ekki afturkvæmt til Íraks. „Faðir hans var að vinna sem túlkur fyrir bandaríska herinn og faðir hans var drepinn af þeim sökum. Þess vegna er öll fjölskyldan sett í sama pakka og eru öll í lífshættu því eru talin svikarar af ákveðnum hópi sem lítur þannig á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×