Innlent

Hvít jól á Norður- og Austurlandi

Snjór í Reykjavík Mörgum þykir snjór jólalegasta veðrið af öllu.
Fréttablaðið/GVA
Snjór í Reykjavík Mörgum þykir snjór jólalegasta veðrið af öllu. Fréttablaðið/GVA

Útlit er fyrir hvít jól á Norður- og Austurlandi, að sögn Óla Þórs Árnasonar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Óljósara er hvernig veður íbúar Suður- og Vesturlands hreppa, hvort jólin þar verði hvít eða rauð. Óli Þór segir líta út fyrir að lægð verði undir landinu á Þorláksmessu eða jafnvel á aðfangadag, henni fylgi úrkoma sem erfitt sé að fullyrða sem sakir standa hvort það verði snjór eða rigning. Helmingslíkur eru því á hvítum jólum á höfuðborgarsvæðinu nú þegar átta dagar eru til jóla.

Spáð er frosti um allt land um næstu helgi sem snjókoma mun fylgja fyrir norðan og austan. Allt í kortunum bendir til þess að sá snjór haldist til jóla. Frost og bjartviðri verður í Reykjavík og nágrenni næstu helgi og engin ofankoma í kortum fyrr en þá á Þorláksmessu eða aðfangadag sem fyrr segir.

Á vef Veðurstofu Íslands, www.vedur.is, er að finna nákvæmar upplýsingar um jólasnjó í Reykjavík aftur til ársins 1920 og nokkuð góðar upplýsingar aftur til ársins 1875. 37 sinnum hefur jörð verið hvít frá árinu 1920 þannig að hvít jól eru óalgengari en rauð sé litið yfir svo langt tímabil. Ef horft er tuttugu ár aftur í tímann þá eru hvít jól algengari en rauð. Síðustu tíu árin hafa fjórum sinnum verið hvít jól í Reykjavík, fjórum sinnum rauð og tvisvar flekkótt. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×