Enski boltinn

Scolari orðaður við QPR

Nordic Photos/Getty Images

Breska blaðið Daily Mail greinir frá því í dag að Luiz Felipe Scolari, fyrrum þjálfari Chelsea, sé á óskalista QPR sem rak knattspyrnustjórann Paulo Sousa úr starfi fyrir skömmu.

QPR er í tíunda sæti í ensku B-deildinni sem er óviðunandi árangur hjá moldríkum eigendum félagsins. Sousa var á sínum tíma aðstoðarmaður Scolari þegar hann var landsliðsþjálfari Portúgala.

Scolari segist vera með fjölda tilboða á borðinu og því verður ef til vill að teljast ólíklegt að hann langi að taka við liði sem er sem stendur í 30. sæti í enska boltanum, en hann hefur þó hætt við að snúa aftur til heimalandsins Brasilíu.

"Umboðsmaðurinn minn hefur fengið fjölda tilboða. Sum þeirra frá stórum félögum með mikinn metnað, en önnur frá klúbbum sem eru með langtímamarkmið. Ég mun taka ákvörðun um framhaldið í sumar en ég hef ákveðið að halda áfram að vinna í Evrópu. Ég er þegar búinn að gleyma því sem gerðist hjá Chelsea, þó það hafi reyndar verið mikilvæg reynsla fyrir mig," sagði Scolari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×