Innlent

Steingrímur velur alla stjórnarmenn Landsvirkjunar

Kristján Már Unnarsson skrifar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, mun sem fjármálaráðherra velja alla fimm stjórnarmenn Landsvirkjunar á aðalfundi eftir sex vikur. Líklegt er að næsta stjórn þurfi bæði að fjalla um nýjar virkjanir og orkusölu til stóriðju, sem Vinstri grænir hafa barist hart gegn.

Eftir að ríkið eignaðist Landsvirkjun að fullu hefur það verið á valdsviði fjármálaráðherra að velja fulltrúa ríkisins í stjórn fyrirtæksins. Árni M. Mathiesen ákvað í fyrra að sjálfstæðismaðurinn Ingimundur Sigurpálsson yrði stjórnarformaður og Samfylkingarkonan Bryndís Hlöðversdóttir varaformaður. Enginn frá Vinstri grænum fór í stjórnina og raunar aðeins einn frá þáverandi stjórnarandstöðu, framsóknarmaðurinn Páll Magnússon.

En nú hefur Steingrímur J. Sigfússon tækifæri til að koma sínum mönnum að því á næsta aðalfundi Landsvirkjunar, sem áformaður er 3. apríl, kýs hann sem handhafi hlutabréfa ríkisins alla stjórnina. Þá gæti hann einnig ráðið því hver verði næsti forstjóri en Friðrik Sophusson, sem hugðist hætta síðastliðið haust, féllst á að gegna starfinu áfram um sinn, þó ekki lengur en í tvö ár.

Meðal verkefna sem líklegt má telja að næsta stjórn Landsvirkjunar fjalli um eru nýjar virkjanir á Þjórsársvæðinu og rannsóknarboranir í Þingeyjarsýslum vegna álvers á Bakka, sem og samningar um orkusölu til stóriðju, allt mál sem Steingrímur og flokksmenn hans í Vinstri grænum hafa gagnrýnt harðlega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×