Erlent

Tugþúsundir flýja heimili vegna eldsumbrota

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Fjallið Mayon.
Fjallið Mayon.

Um það bil 50.000 Filippseyingar flýja nú heimili sín vegna jarðhræringa sem taldar eru boða gos úr kröftugasta eldfjalli eyjanna.

Mayon-eldfjallið er það virkasta á Filippseyjum og hefur gosið rúmlega 50 sinnum á síðustu 400 árum. Nú eru jarðhræringar hafnar í nágrenni fjallsins og glóandi hraunkvika tekin að vella niður hlíðar þess. Jarðvísindamenn á Filippseyjum telja þetta ekki boða neitt gott og nú eru 50.000 íbúar í nágrenni fjallsins í óða önn að pakka saman og rýma heimili sín.

Öllu þessu fólki er komið fyrir til bráðabirgða í skólum og íþróttasölum um alls Albay-héraðið en þar er Mayon-fjallið staðsett. Talsmaður almannavarna héraðsins segir ástandið ekki gott, hægt sé að útvega mat og drykkjarvatn handa fólkinu í einn mánuð en það gæti þurft að vera mun lengur en það að heiman ef það á þess þá nokkurn tímann kost að snúa aftur til heimkynna sinna. Það fer eftir því hvort fjallið gýs og hve umfangsmikið gosið verður ef svo fer.

Hjálparstofnanir á Filippseyjum og víðar eru þegar teknar að undirbúa matarsöfnun auk þess sem teppum og fatnaði er safnað saman handa fólkinu. Mikil eldvirkni er á Filippseyjum sem eru staðsettar á eins konar eldhring, belti eldfjalla sem liggur um Kyrrahafið og gerir það að verkum að jarðskjálftar eru einnig tíðir þar. Á Filippseyjum einum eru 22 virk eldfjöll og þar varð síðast stórt eldgos árið 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×